Samfélag

Ósar og dótturfélögin, Icepharma, LYFIS og Parlogis, eru félög á sviði heilsu og heilbrigðis sem gegna mikilvægu og samfélagslega ábyrgu hlutverki sem bakhjarl heilbrigðiskerfisins.

Stuðlum að auknum lífsgæðum landsmanna

Góð heilsa og vellíðan er afar mikilvægur þáttur í viðleitni til að ná markmiðum sjálfbærrar þróunar. Við gerum okkur grein fyrir samfélagslega mikilvægu hlutverki okkar í því samhengi og tökum því alvarlega. Með yfirgripsmikilli reynslu og þekkingu starfsfólks, öflugu framboði lyfja, lækningatækja, rekstrarvara og heilsueflandi vara og víðtækri vörustjórnunar- og dreifingarþjónustu vinnum við markvisst að því meginmarkmiði að þjónusta heilbrigðisgeirann, auka lífsgæði einstaklinga og stuðla að bættu heilbrigði og vellíðan landsmanna.

Parlogis gegnir lykilhlutverki í lífæðinni

Samfélagsleg ábyrgð Parlogis

Nafnið Parlogis er dregið af setningunni “Partner in logistics” sem lýsir vel hlutverki fyrirtækisins. Parlogis býður alhliða þjónustu við vörustjórnun innan heilbrigðis- og heilsuvörugeirans og leggur höfuðáherslu á metnaðarfull vinnubrögð, afburðaþjónustu og áreiðanleika. Samfélagsleg ábyrgð Parlogis er mjög mikil, sérstaklega þegar horft er til þess að það ber ábyrgð á aðfangakeðju u.þ.b. 40% lyfjamarkaðarins á Íslandi auk þess sem fyrirtækið er með mikil umsvif hvað dreifingu á hjúkrunarvörum og lækningatækjum varðar. Parlogis tekur hlutverki sínu mjög alvarlega og gætir vel að því að nægar öryggisbirgðir markaðssettra lyfja og lækningatækja séu til í landinu sem er sérstaklega mikilvægt á tímum Covid og ófriðarástands í heiminum.

700 pantanir daglega

Parlogis er með tvö vöruhús í rekstri. Annað þeirra er sérhæft fyrir lyf og heilbrigðisvörur til að tryggja rétt geymslu- og vinnsluskilyrði og hitt vöruhúsið er sérhæft fyrir neytendavörur á borð við vítamín og fæðubótarefni, íþróttavörur og matvöru. Bæði vöruhús eru vel tækjum búin og áreiðanleikinn er undantekningalaust yfir 99,9%. Að jafnaði eru um 700 pantanir afgreiddar daglega úr vöruhúsum Parlogis til apóteka, sjúkrahúsa, rannsóknarstofa, tannlækna, sérfræðilækna og dagvöruverslana og í flestum tilfellum eru pantanir afgreiddar innan 24 klukkustunda.

Fagleg vinnubrögð í fyrirrúmi

Gæðamál eru í hávegum höfð í allri starfsemi Parlogis. Unnið er samkvæmt ISO 9001 vottun, GDP (Good Distribution Practice) og GMP (Good Manufacturing Practice). Lyf eru viðkvæm vara og því þarf að gæta sérstaklega vel bæði að flutningi og geymsluskilyrðum til að tryggja virkni og gæði þeirra. Lyfjasendingar til landsins innihalda hitastigsnema sem lesið er af við ítarlega móttökuskoðun til að tryggja að hitafrávik eða önnur frávik hafi ekki átt sér stað áður en lyfin eru samþykkt til sölu og komist þannig í almenna dreifingu innan heilbrigðiskerfisins.

Árlegar þjónustukannanir sanna gæði þjónustunnar

Parlogis framkvæmir árlega þjónustukönnun á meðal viðskiptavina þar sem óháð markaðsfyrirtæki sendir út spurningalista til apóteka, sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana. Niðurstöður könnunarinnar hafa um árabil sýnt ótvírætt fram á að Parlogis veitir heilbrigðiskerfinu framúrskarandi þjónustu og áreiðanleika í fremstu röð á Íslandi.

Viljum hafa áhrif á samfélagið

Heimurinn er sannarlega að breytast og meðalaldur fer hækkandi. Breyting á aldurssamsetningu þjóðarinnar með auknum fjölda eldri borgara mun gera auknar kröfur til velferðarþjónustunnar. Það er því afar mikilvægt að horfa á öldrun þjóðarinnar sem tækifæri til framfara og framþróunar. Ósar og dótturfélögin vilja hafa áhrif á samfélagið og stuðla að því að einstaklingar geti viðhaldið heilsu og vellíðan og bætt lífsgæði sín til framtíðar.

Kristján Jóhannsson

Kristján Jóhannsson er stjórnarformaður Icepharma. Hér ræðir Kristján um framtíðarsamfélagið og hvernig Ósar og dótturfélögin vilja hafa áhrif og taka þátt í mótun þess.

Heilsubyggð við Arnarnesháls

Eitt af stærstu verkefnum ársins 2021 er þátttaka og leiðandi hlutverk Ósa í uppbyggingu á heilsubyggð á Arnarneshálsi í Garðabæ. Byggðin mun annars vegar samanstanda af rúmgóðum hágæðaíbúðum sem bjóða upp á möguleika á hátæknivæðingu fyrir 50 ára og eldri sem stuðlar að því að einstaklingar geti notið hámarks lífsgæða og sjálfstæðis út ævina. Hins vegar mun byggðin hýsa miðstöð fyrirtækja sem sérhæfa sig í heilbrigðisþjónustu, þróun og nýsköpun í heilsueflandi starfsemi. Ósar og dótturfélögin munu reisa framtíðarhöfuðstöðvar sínar á svæðinu og vera leiðandi í uppbyggingu á atvinnuhluta byggðarinnar.

,,Á Arnarlandi mun myndast klasi heilsutæknifyrirtækja í kraftmiklu umhverfi sem tengir saman fólk, fyrirtæki og sprota sem í sameiningu mun leysa hluta af þeim framtíðaráskorunum sem heilbrigðiskerfið og íslenskt samfélag stendur frammi fyrir.


Með umhverfis- og sjálfbærnimál að leiðarljósi verður skipulag hverfisins með þeim hætti að það uppfylli skilyrði um BREEAM vistvottun. Vottunin hefur það markmið að tryggja efnahagslegan og samfélagslegan ávinning á sama tíma og dregið er úr umhverfisáhrifum. Þannig styður verkefnið við stefnur og gildi samstæðunnar um sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð.”

Hálfdan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Parlogis, leiðir uppbyggingu á atvinnuhluta landsins fyrir hönd Ósa.

Þátttakandi í þróun og nýsköpun sem stuðlar að auknum lífsgæðum

Líkt og Arnarlandsverkefnið gefur til kynna er það markmið okkar að vera þátttakandi og stuðningsaðili í þróun og nýsköpun í velferðartækni og lausnum sem stuðla meðal annars að því að einstaklingar geti búið lengur heima hjá sér í öryggi og með aðgang að þjónustu sem er þeim mikilvæg.

Á árinu tók Icepharma þátt í samvinnuverkefni með Velferðarsviði Reykjavíkurborgar um innleiðingu á 25 sjálfvirkum lyfjaskömmturum á heimilum skjólstæðinga. Lyfjaskammtarar eru byltingarkennd tækni sem nýtist einkar vel í fjarheilbrigðisþjónustu og þjóna íbúum sem búa heima en þurfa daglega eða oftar aðstoð og eftirfylgni við lyfjainntöku.

Helga Dagný Sigurjónsdóttir

Helga Dagný, viðskiptastjóri á Heilbrigðissviði Icepharma, segir okkur hér nánar frá samstarfsverkefninu.