Sjómenn tóku vel í heilsueflandi heilsuáskorun Nettó
11/10/2023
Í kjölfar Heilsu- og lífsstílsdaga Nettó, spratt upp hugmynd að samstarfsverkefni sem nú hefur verið efnt til. Verkefnið ber yfirskriftina; Heilsuáskorun til sjómanna og hefur áhöfnin um borð í frystitogaranum Tómasi Þorvaldssyni, sem sjávarútvegsfyrirtækið Þorbjörn hf í Grindavík gerir út, tekið áskoruninni.
„Við hjá Nettó erum ákaflega ánægð að vera samstarfsaðili í þessu skemmtilega heilsueflandi átaki sjómanna,“ segir Ingibjörg Ásta Halldórsdóttir, markaðsstjóri Nettó.
Öðrum útgerðum til eftirbreytni
Eiríkur Óli Dagbjartsson, útgerðarstjóri Þorbjarnar hf, tekur í sama streng og er hæstánægður með verkefnið og þá sem að því standa. „Við lítum svo á að þetta sé verðugt og skemmtilegt samstarfsverkefni. Við höfum mætt mikilli fagmennsku hjá Nettó, Ásdísi Rögnu grasalækni og Óla Baldri einkaþjálfara,“ segir hann.
„Við höfðum verið að skoða að fara í eitthvert svona verkefni með Nettó þegar Einar Hannes Harðarson, formaður Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur og vinnslustjóri um borð í Tómasi, kom til okkar með þessa hugmynd. Þannig þetta hitti vel á,“ segir Eiríkur Óli um upphaf samstarfsverkefnisins.
„Við erum tilbúin að leggja töluvert á okkur til að stuðla að heilsueflingu og vera öðrum útgerðum og áhöfnum til fyrirmyndar. Við lítum á þetta sem hluta af okkar starfsmannastefnu og viljum gera vel við okkar sjómenn. Það skiptir miklu máli að þeir nærist vel og hugi vel að heilsunni – sjómennskan er hörkuvinna,“ segir Eiríkur og vísar í starfsumhverfi sjómanna sem oft einkennist af óreglulegum vinnutíma, löngum vöktum og erfiðum aðstæðum.
„Við höfum trú á að bætt mataræði og líkamsrækt komi til með að hafa jákvæð áhrif á heilsufar okkar manna,“ segir Eiríkur og telur margvíslegan ávinning hljótast af heilsueflingu.
Heilsan höfð í fyrirrúmi
Áhöfnin á Tómasi Þorvaldssyni hélt til veiða í mánaðarlangan túr síðdegis í gær. Kokkurinn um borð, Vilhjálmur Lárusson, hefur nú þegar sett sig í stellingar og er spenntur fyrir komandi áskorun. Áður en lagt var af stað frá bryggju tók Vilhjálmur kostinn undir handleiðslu Ásdísar Rögnu Einarsdóttur, grasalæknis og meistaranema í lýðheilsuvísindum.
„Þessi kona kann sitt fag,“ segir Vilhjálmur. „Við fórum saman í Nettó og keyptum inn öll hráefni sem þarf fyrir til að setja saman nýjan og heilsusamlegan matseðil. Hún fór yfir þetta allt saman með mér og það var mjög lærdómsríkt,“ útskýrir Vilhjálmur en Ásdís kemur til með að vera áhöfninni innan handar á meðan á áskoruninni stendur.
Skömmu áður en áhöfnin á Tómasi Þorvaldssyni hélt til veiða mættu þær Ingibjörg Ásta og Ásdís um borð til að afhenda áhafnarmeðlimum ýmis vítamín.
„Hver og einn fékk veglegan bætiefnapakka í samstarfi við NOW sem inniheldur fjölvítamín, Omega fitusýrur og D-vítamín og allir tilbúnir í að takast á við áskorunina,“ segir Ingibjörg og bendir á að í heilsublaði Nettó megi finna fjöldann allan af fróðleik um heilsusamlegan lífsstíl.
Fleiri fréttir
Icepharma hefur lengi verið með umboð fyrir Natracare tíðarvörunum sem eru unnar úr lífrænni bómull og eru án allra eitur-,
60 ára sögu Speedo var fagnað í Sundhöll Hafnarfjarðar á haustmánuðum 2023 með glæsilegum hætti þar sem sundföt síðustu áratuga
Fyrirtækið E. Bridde, sem sérhæfir sig í tannlækningavörum, var keypt á árinu 2023 og með fyrirtækinu kom Straumann sem