Heilbrigðir stjórnarhættir og heilsutengdar áherslur

Stjórn Ósa og dótturfélaga gerir sér grein fyrir auknum kröfum sem gerðar eru til fyrirtækja á sviði ábyrgðar gagnvart samfélaginu. Stjórnin leggur því áherslu á heilbrigða stjórnarhætti og að þróa þá stöðugt og styrkja enda leggja þeir grunninn að ábyrgri stjórnun, vandaðri ákvarðanatöku og traustum samskiptum.

Stjórnarhættir samstæðunnar kveða á um hvernig innra skipulag stuðlar að virkri og heilbrigðri stjórnun með markmið samstæðunnar að leiðarljósi. Við viljum hafa áhrif á samfélagið, þ.m.t. starfsmenn samstæðunnar, og stuðla að því að einstaklingar geti viðhaldið heilsu og vellíðan og bætt lífsgæði sín til framtíðar. Stjórnarhættir samstæðunnar taka mið af þessum markmiðum og endurspeglast í heilsutengdum áherslum þegar kemur að stefnumótun, ákvarðanatöku, markmiðasetningu og menningu jafnt í ytra sem og innra starfi.

 • Aðalstjórn Ósa og dótturfélaga er skipuð tveimur karlmönnum og tveimur konum og uppfyllir þar með ákvæði 63. gr. hlutafélagalaga um kynjahlutföll í stjórn. Forstjóri Ósa er karlmaður og fjármálastjóri kona.

 • Stjórnarhættirnir taka fyrst og fremst mið af lögum nr. 2/1995 um hlutafélög og samþykktum samstæðunnar og til hliðsjónar og leiðbeiningar er meðal annars fylgt Handbók stjórnarmanna (2. útgáfa) sem og Leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja.

 • Aðalstjórn Ósa og dótturfélaganna hefur sett sér starfsreglur sem ramma inn helstu verkefni og valdsvið stjórnar og stjórnarhætti samstæðunnar.

Heildstæð áhættustjórnun og virkt gæðaeftirlit

Starfsemi samstæðunnar er á ýmsa vegu háð ytri aðstæðum og má þar nefna þann veigamikla áhrifaþátt að stór hluti hennar liggur innan skilgreinds ramma heilbrigðiskerfisins. Starfsemin er þannig vörðuð lögum, reglugerðum og opinberu eftirliti sem kallar á vönduð vinnubrögð í hvívetna.   Heilbrigðir stjórnarhættir fela í sér áhættustýringu og eftirlit. Stjórn samstæðunnar leggur því ríka áherslu á heildstæða áhættustjórnun og virkt gæðaeftirlit sem hluta af daglegum rekstri samstæðunnar enda fela sífellt örari breytingar í umhverfi fyrirtækja í sér aukna áhættu.

Áherslur í gæðamálum á árinu 2022

“Með stofnun Ósa gafst tækifæri til að samræma stefnur og ferla og styrkja þannig gæðakerfi samstæðunnar. Árið 2022 var lögð áhersla á samvinnu innan samstæðunnar um að byggja upp gæðahandbækur félaganna í sameiginlegu gæðakerfi sem var innleitt og gildað fyrir lok árs. Gæðakerfið heldur þannig faglega utan um gæðahandbækur félaganna, þó með öllum þeim aðgangsstýringum sem nauðsynlegar eru, og stuðlar að enn skilvirkara og traustara gæðastarfi og öflugri þjálfun starfsfólks. Samstæðan viðheldur þannig faglegri hæfni og framþróun með sífelldri árvekni og símenntun sem gerir samstæðunni kleift að starfa á fullnægjandi hátt í faglegu umhverfi.”

Bessi H. Jóhannesson, framkvæmdastjóri Gæðasviðs Ósa

Eðli starfseminnar kallar á að félögin og starfsmenn þess hlíti ítrustu stöðlum, lögum og reglum þegar kemur að siðferði og samskiptum starfsmanna við hagaðila. Starfsfólk framfylgir siða- og samskiptareglum sem endurspegla hvernig starfsfólk hagar samskiptum sínum við neytendur, birgja, viðskiptavini, samstarfsfólk, eftirlitsstofnanir, hluthafa, samkeppnisaðila sem og samfélagið allt. Tilgangur reglnanna er að stuðla að samfélagslegri ábyrgð, heiðarleika, réttsýni og sanngirni í viðskiptum og efla traust á Ósum og dótturfélögum þess.

Ósar og dótturfélög stunda heiðarleg og ábyrg viðskipti þar sem hvers konar mútur og spilling er hvorki viðhöfð né liðin. Samstæðan hefur sett sér stefnu sem er ætlað að tryggja að samstæðan hafi viðeigandi umgjörð og varnir gegn spillingu og mútuþægni.

Virðiskeðja samstæðunnar er byggð á siðrænum og ábyrgum gildum. Með framkvæmd birgjamats og úttekta geta Ósar og dótturfélög þess haft samfélagsleg áhrif á samstarfsaðila sína og nærumhverfi til framtíðar og valið að starfa með birgjum og þjónustuaðilum sem starfa eftir sömu gildum og samstæðan.

Góð heilsa og leiðir til að efla heilbrigði er í forgrunni í öllu okkar innra starfi. Við vitum að vellíðan á vinnustað eykur lífsgæði starfsfólks og leggjum því áherslu á að skapa öruggt og gott starfsumhverfi og efla heilbrigði starfsfólks á margvíslegan hátt. Þess vegna höfum við í æ ríkara mæli verið að beina sjónum okkar að skipulögðu innra vinnuverndarstarfi með því m.a. að efla þekkingu og hugsun stjórnenda og starfsmanna um heilsu- og vinnuverndarmál.

Við gerum okkur grein fyrir því að upplýsingarnar og gögn, sem starfsfólk tekur á móti, safnar, skráir, vinnur með o.fl., ásamt stuðningsferlum, kerfum, netum og öðrum auðlindum eru ein mikilvægustu rekstrarlegu verðmæti samstæðunnar sem þarfnast virkrar verndar fyrir ólíkum ógnum. Undanfarið ár höfum við því lagt höfuðáherslu á upplýsingaöryggismál í víðum skilningi.

Samstæðan hefur sett sér upplýsingaöryggisstefnu og verklagsreglur henni til stuðnings sem er ætlað að styðja við samfelldan rekstur og hámarka öryggi upplýsingaverðmæta.Stefnunni er þannig ætlað að tryggja hlítingu við kröfur er varða upplýsingaöryggi og vinnslu persónuupplýsinga, s.s. kröfur sem koma fram í lögum og reglum og í samningum við viðskiptavini og samstarfsaðila.

Fyllsta öryggis er gætt við meðhöndlun persónuupplýsinga og lýsa persónuverndarstefnur félaganna ábyrgri meðhöndlun slíkra upplýsinga. Hlutverk persónuverndarfulltrúa Ósa er að vera stjórnendum innan handar og veita ráðgjöf þegar kemur að meðhöndlun persónuupplýsinga í starfseminni en hann hefur ekki síður mikilvægu hlutverki að gegna gagnvart starfsmönnum, s.s. við upplýsingagjöf, fræðslu, þjálfun og aðra almenna öryggisvakningu meðal starfsmanna. Samstæðan hefur sett sér stefnu um persónuvernd starfsmanna og sérstök áhersla hefur verið lögð á upplýsingagjöf til starfsmanna.

 

Helga Björnsdóttir

Helga Björnsdóttir er lögfræðingur og persónuverndarfulltrúi samstæðunnar. Hér segir Helga frá hlutverki persónuverndarfulltrúa, m.a. þegar kemur að fræðslu og upplýsingagjöf til starfsfólks.

 

Góð atvinna og bætt lífskjör

Langvarandi og sjálfbær hagvöxtur er drifkraftur framfara, skapar góða atvinnu og bætt lífskjör. Með heilbrigðum stjórnarháttum viljum við halda áfram að byggja upp traustan og framsækinn vinnustað sem dregur að, heldur í og eflir framúrskarandi starfsfólk. Þannig viljum við skapa öruggt og gott starfsumhverfi sem styður við starfsfólk í faglegum og persónulegum vexti.

Hjá samstæðunni starfar öflugur hópur fólks með fjölbreyttan bakgrunn, margvíslega menntun og víðtæka reynslu og þekkingu af ýmsum sviðum samfélagsins. Í lok árs 2022 var heildarfjöldi stöðugilda hjá samstæðunni 192 en þau voru 194 að meðaltali yfir árið. Meðalaldur starfsfólks var 41 ár.

0
Meðalaldur starfsfólks
0
einstaklingar sem fengu laun á árinu (2022)
0
einstaklingar sem fengu laun á árinu (2022) og voru fastráðnir.

Áhersla samstæðunnar á jafnrétti endurspeglast í jafnréttisáætlun samstæðunnar sem gefin var út í lok árs 2021 og gildir til þriggja ára. Í jafnréttisáætluninni er lögð áhersla á jafnan rétt og jafna stöðu starfsfólks óháð kyni.

Í lok árs 2022 var kynjaskipting samstæðunnar í heild eftirfarandi:

 • Karlar: 33%
 • Konur: 67%
 • Annað: 0%

Kynjahlutfall sundurliðað niður á einstök félög innan samstæðunnar:

Icepharma

Parlogis

Ósar

Samhliða jafnréttisáætluninni er unnið eftir jafnlaunastefnu sem hefur það að markmiði að tryggja að allt starfsfólk njóti jafnra og sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf þannig að ómálefnanlegur launamunur sé ekki til staðar. Sé óútskýrður launamunur til staðar skal stöðugt unnið að því að útrýma honum.

Markmið okkar er að kynbundinn launamunur sé undir 2%.

Ekki var unnin jafnlaunagreining fyrir árið 2022.

Helstu áherslur í mannauðsmálum 2022

Árið 2022 var fyrsta heila árið þar sem Ósar – lífæð heilbrigðis ehf. starfaði sem ein samstæða og hið nýja skipulag móðurfélags og dótturfélaganna Icepharma og Parlogis tók á sig mynd.

Stoðþjónusta á sviði fjármála, gæðamála, mannauðsmála og upplýsingatækni var efld til muna og starfsfólk fór betur og betur að finna taktinn eftir umtalsverðar skipulagsbreytingar ársins á undan. Áhersla var lögð á virka upplýsingagjöf í breytingaferlinu og að starfsfólk væri þátttakendur alltaf þegar því var við komið.

Solveig H. Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Mannauðssviðs Ósa

Snemma árs var Starfsmannaráð Ósa sett á laggirnar. Ráðið hittist reglulega og eiga þar sæti bæði stjórnendur og starfsmenn og er megintilgangur þess að vera vettvangur fyrir umræður og skoðanaskipti milli stjórnenda og starfsmanna. Ráðið fjallar um ýmis málefni og kemur sjónarmiðum á framfæri er tengjast hagsmunum starfsmanna, s.s. starfsumhverfið, félagsstarfið, viðburði, fræðslu, þjálfun, og stefnur mannauðs.

Starfsánægja er einn af mikilvægustu þáttum hvers vinnustaðar og því mikilvægt að mæla og fylgjast með upplifun starfsfólks á eigin störfum, starfsumhverfi og líðan á vinnustað. Í okkar huga eru mælingar sem þessar afar mikilvægt tól, sér í lagi á tímum breytinga, þar sem starfsfólk getur nýtt sér könnunina sem rödd til að koma ábendingum hratt og auðveldlega á framfæri. Niðurstöðurnar eru svo kynntar starfsfólki og nýttar sem tækifæri til umbóta.

Í apríl var mannauðsmælingin í fyrsta skipti send út á alla starfsmenn samstæðunnar. Um 83% starfsfólks tók þátt í mælingunni og kom hún afar vel út fyrir heildina, en heildarárangur mældist í tölum 4,36 af 5 mögulegum sem er besti árangur síðan við hófum starfsánægjumælingar. Niðurstöðurnar sýna að starfsfólk okkar er almennt ánægt í vinnunni, það upplifir sig vera þátttakendur í árangursríkri liðsheild og getur mælt með vinnustaðnum við vini sína.

Það er okkar reynsla að reglulegar mannauðsmælingar hjálpi til við að auka virkni starfsfólks og styðji við færni stjórnenda en þetta eru lykilþættir í að viðhalda góðum starfsanda og draga úr starfsmannaveltu.

Gaman er að segja frá því að vorið 2022 fengu Ósar og dótturfélög svefnvottun eftir skimun sem framkvæmd var með spurningalistum frá Betri svefn og beindust spurningarnar að lengd svefns og gæðum. Þeim starfsmönnum sem greindust með svefnvanda bauðst í framhaldinu ráðgjöf og meðferð eftir þðrfum og var starfsfólki með þessu framtaki gert ljóst mikilvægi þess að setja svefn í forgrunn í sínu lífi.

Nýtt þjónustuteymi „Miðjan“ var stofnað innan Mannauðssviðs um haustið. Lykilverkefni þjónustuteymis er að stuðla að líflegum starfsanda og vinnustaðamenningu með stuðningi við stjórnendur og starfsmenn, skipulagningu viðburða og funda og jákvæðri innri markaðssetningu. Þar fer einnig fram á einum stað símsvörun og móttaka gesta, aðstoð við ráðningar, móttöku nýrra starfsmanna, ferðalög og gjafir svo eitthvað sé nefnt. Teymið er staðsett í hjarta fyrirtækisins og hafa allir starfsmenn aðgang að því.

Á síðari hluta ársins var sérstök áhersla lögð á fræðslu og þjálfun starfsmanna. Metnaðarfull fræðsludagskrá var kynnt um haustið sem fól m.a. í sér sértæk námskeið fyrir skilgreinda hópa og opin námskeið eða fyrirlestra þar sem öllum starfsmönnum bauðst þátttaka. Um haustið var lagt af stað í tvö stór þjálfunarverkefni, annars vegar leiðtogaþjálfun fyrir alla stjórnendur samstæðunnar og hins vegar söluþjálfun fyrir viðskiptastjóra lyfja og heilbrigðisvara. Hver einasti starfsmaður fékk boð í þjálfun af einhverju tagi og auk þess voru reglulega fræðsla og fyrirlestrar, með áherslu á heilsu, heilbrigði og forvarnir. Þegar allt er tekið saman kemur í ljós að 90% starfsmanna tóku þátt í fræðslustarfi með einum eða öðrum hætti.

Einnig var áhersla á kynningar á deildum og sviðum, hvaða starfsemi fer þar fram og vöruframboð kynnt en starfsmenn hafa mikið kallað eftir því að fá betri innsýn í störf hvert annars og var m.a. komið til móts við það með þessum hætti.

Workplace var virkjað til muna á árinu og gegnir nú afar mikilvægu hlutverki í miðlun efnis og upplýsinga um heilsueflingu og hreyfingu starfsmanna, fræðslu og þjálfun og hverju því sem gott er fyrir starfsfólk að vita og fylgjast með. Þar fara einnig fram kynningar á nýjum vörum og þjónustu, tilkynningar um nýja starfsmenn og ýmsir leikir og keppnir eru þar haldnir enda starfsfólk upp til hópa mikið keppnisfólk! Þetta hefur gefist vel og mikil virkni og endurgjöf er á miðlinum sem aftur gefur tilfinningu um góðan starfsanda og áhuga fólks hvert á öðru og störfum hvers annars.

Á þeim nótum má segja að árið 2022 hafi fyrst og fremst verið skemmtilegt og gefandi, uppfullt af nýjungum og tækifærum og er óhætt að segja að virkni og þátttaka starfsfólks hafi aldrei verið meiri en nú.

Sköpum tækifæri til að vaxa og dafna í lífi og starfi

Stjórnarhættir samstæðunnar miða að því að skapa tækifæri og svigrúm fyrir starfsfólk til að vaxa og dafna í lífi og starfi og því er lögð er áhersla á það að bjóða margvíslega fræðslu og þjálfun sem hentar fjölbreyttum hópi starfsfólks.

Fræðslustefna okkar miðar að því að starfsfólk geti aukið hæfni sína og nýtt hæfileika sína í starfi til fulls hverju sinni. Stefnan miðar ekki síður að því að bjóða starfsmönnum aðgengi að fjölbreyttri fræðslu sem stuðlar m.a. að heildrænni vellíðan starfsmanns og annarra einstaklinga sem standa starfsmanninum næst. Á þann hátt tryggjum við hámarks árangur af þeirri þjálfun og fræðslu sem fjárfest er í.

Fræðsludagskrá ársins 2022 skiptist í 7 fræðsluflokka:

 • Heilsa
 • Leiðtogaþjálfun
 • Nýliðaþjálfun
 • Persónuvernd
 • Sala og þjónusta
 • Samskipti og teymisvinna
 • Upplýsingatækni
 • Verkefnastýring
 • Öryggismál

Fjöldi viðburða í fræðsludagskrá samstæðunnar árið 2022 var 41. Heildarfjöldi þátttakenda í fræðsludagskrá samstæðunnar árið 2022 var 627.