Stjórnarhættir

Stjórn Ósa og dótturfélaga leggur áherslu á góða stjórnarhætti og að þróa þá stöðugt og styrkja. Þannig eru stjórnarhættir í sífelldri endurskoðun til að bregðast við nýjum atburðum, breytingum á lögum og þróun hérlendis sem og erlendis.

Gildi samstæðunnar endurspeglast í stjórnarháttum

Aðalstjórn Ósa og dótturfélaganna er skipuð tveimur karlmönnum og tveimur konum og uppfyllir þar með ákvæði 63. gr. hlutafélagalaga um kynjahlutföll í stjórn. Forstjóri Ósa er karlmaður og fjármálastjóri kona.

Góðir stjórnarhættir leggja grunninn að ábyrgri stjórnun og vandaðri ákvarðanatöku og stuðla að traustum samskiptum við hagaðila. Stjórn Ósa og dótturfélaga leggur áherslu á góða stjórnarhætti og að þróa þá stöðugt og styrkja. Þannig eru stjórnarhættir í sífelldri endurskoðun til að bregðast við nýjum atburðum, breytingum á lögum og þróun hérlendis sem og erlendis.

Stjórn hefur sett starfsreglur sem ramma inn stjórnarhætti félagsins. Stjórnarhættir félagsins taka fyrst og fremst mið af lögum nr. 2/1995 um hlutafélög og samþykktum samstæðunnar og til hliðsjónar og leiðbeiningar er meðal annars fylgt Handbók stjórnarmanna (2. útgáfa) sem og Leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem Viðskiptaráð Íslands, Nasdaq á Íslandi og Samtök atvinnulífsins hafa gefið út. Til viðbótar leggur stjórnin ríka áherslu á að tileinka sér gildi þeirra félaga sem samstæðuna mynda sem endurspeglast í áreiðanlegum, ábyrgum og metnaðarfullum stjórnarháttum og lausnamiðuðum vinnubrögðum.

Gildi Icepharma

Ábyrgð

Gleði

Metnaður

Gildi Parlogis

Áreiðanleiki

Lausnir

Ánægja

Gildi Parlogis

Áhættustjórnun og ábyrgð í samskiptum

Starfsemin er á ýmsa vegu háð ytri aðstæðum og má þar nefna þann veigamikla áhrifaþátt að stór hluti hennar liggur innan skilgreinds ramma heilbrigðiskerfisins. Starfsemin er þannig vörðuð lögum, reglugerðum og opinberu eftirliti á ýmsa vegu og kallar á vönduð vinnubrögð í hvívetna.  Stjórn samstæðunnar leggur því ríka áherslu á öfluga áhættustjórnun sem hluta af daglegum rekstri samstæðunnar enda fela sífellt örari breytingar í umhverfi fyrirtækja í sér aukna áhættu.

Siða- og samskiptareglur

Eðli starfseminnar kallar á að félögin og starfsmenn þess hlíti ítrustu stöðlum, lögum og reglum þegar kemur að siðferði og samskiptum starfsmanna við hagaðila. Starfsfólk framfylgir siða- og samskiptareglum sem endurspegla hvernig starfsfólk hagar samskiptum sínum við neytendur, birgja, viðskiptavini, samstarfsfólk, eftirlitsstofnanir, hluthafa, samkeppnisaðila sem og samfélagið allt. Tilgangur reglnanna er að vinna að sjálfbærni og samfélagslegri ábyrgð, stuðla að heiðarleika, réttsýni og sanngirni í viðskiptum og efla traust á Ósum og dótturfélögum þess.

Heiðarleg og ábyrg viðskipti

Ósar og dótturfélög stunda heiðarleg og ábyrg viðskipti þar sem hvers konar mútur og spilling er hvorki viðhöfð né liðin. Samstæðan hefur sett sér stefnu sem er ætlað að tryggja að samstæðan hafi viðeigandi umgjörð og varnir gegn spillingu og mútuþægni og er starfsfólk þjálfað í þeirri stefnu árlega.

Birgjamat og úttektir

Virðiskeðja samstæðunnar er byggð á siðrænum og ábyrgum gildum. Með framkvæmd birgjamats og úttekta geta Ósar og dótturfélög þess haft samfélagsleg áhrif á samstarfsaðila sína og nærumhverfi til framtíðar og valið að starfa með birgjum og þjónustuaðilum sem starfa eftir sömu gildum og samstæðan.

Regluleg endurskoðun á sjálfbærniáhættum í starfseminni

Stjórn Ósa og dótturfélaga þess er meðvituð um samfélagslega ábyrgð samstæðunnar og auknar kröfur um sjálfbærni. Stjórnin leggur því ríka áherslu á að samstæðan haldi áfram vegferð sinni til samfélagslegrar ábyrgðar og sjálfbærni og endurskoði reglulega sjálfbærniáhættur í starfsemi sinni. Ósar og dótturfélögin munu árið 2022 innleiða UFS þætti í áhættustýringu samstæðunnar.

Upplýsingaöryggi í forgrunni

Starfsfólk tekur á móti, safnar, skráir, vinnur með, vistar, miðlar og sendir upplýsingar í margvíslegu formi daglega – mörgum sinnum á dag. Við gerum okkur grein fyrir því að upplýsingarnar ásamt stuðningsferlum, kerfum, netum og öðrum auðlindum eru ein mikilvægustu rekstrarlegu verðmæti samstæðunnar sem þarfnast virkrar verndar fyrir ólíkum ógnum. Undanfarið ár höfum við því lagt höfuðáherslu á upplýsingaöryggismál í víðum skilningi og sem þáttur í sjálfbærum og samfélagslega ábyrgum rekstri verða slík viðfangsefni áfram forgangsmál hjá samstæðunni.

Samstæðan hefur sett sér upplýsingaöryggisstefnu og verklagsreglur henni til stuðnings sem er ætlað að styðja við samfelldan rekstur og hámarka öryggi upplýsingaverðmæta og þ.m.t. upplýsingakerfa í eigu og/eða vörslu samstæðunnar. Stefnunni er þannig ætlað að tryggja hlítingu við kröfur er varða upplýsingaöryggi og vinnslu persónuupplýsinga, s.s. kröfur sem koma fram í lögum og reglum og í samningum við viðskiptavini og samstarfsaðila.

Ábyrg meðhöndlun persónuupplýsinga

Fyllsta öryggis er gætt við meðhöndlun persónuupplýsinga og lýsa persónuverndarstefnur félaganna ábyrgri meðhöndlun slíkra upplýsinga. Hlutverk persónuverndarfulltrúa Ósa er að vera stjórnendum innan handar og veita ráðgjöf þegar kemur að meðhöndlun persónuupplýsinga en hann hefur ekki síður mikilvægu hlutverki að gegna gagnvart starfsmönnum, s.s. við upplýsingagjöf, fræðslu, þjálfun og aðra almenna öryggisvakningu meðal starfsmanna. Á árinu var lögð sérstök áhersla á upplýsingagjöf til starfsmanna um eigin persónuvernd í ráðningarsambandi og á vinnustaðnum og var meðal annars gefin út stefna um persónuvernd starfsmanna og leiðbeiningar stefnunni til stuðnings.

Helga Björnsdóttir

Helga Björnsdóttir er lögfræðingur og persónuverndarfulltrúi samstæðunnar. Hér segir Helga frá hlutverki persónuverndarfulltrúa, m.a. þegar kemur að fræðslu og upplýsingagjöf til starfsfólks.