Heilbrigðir stjórnarhættir og heilsutengdar áherslur
Stjórn Ósa og dótturfélaga gerir sér grein fyrir auknum kröfum sem gerðar eru til fyrirtækja á sviði ábyrgðar gagnvart samfélaginu. Stjórnin leggur því áherslu á heilbrigða stjórnarhætti og að þróa þá stöðugt og styrkja enda leggja þeir grunninn að ábyrgri stjórnun, vandaðri ákvarðanatöku og traustum samskiptum.
Stjórnarhættir samstæðunnar kveða á um hvernig innra skipulag stuðlar að virkri og heilbrigðri stjórnun með markmið samstæðunnar að leiðarljósi. Við viljum hafa áhrif á samfélagið, þ.m.t. starfsmenn samstæðunnar, og stuðla að því að einstaklingar geti viðhaldið heilsu og vellíðan og bætt lífsgæði sín til framtíðar. Stjórnarhættir samstæðunnar taka mið af þessum markmiðum og endurspeglast í heilsutengdum áherslum þegar kemur að stefnumótun, ákvarðanatöku, markmiðasetningu og menningu jafnt í ytra sem og innra starfi.

Heildstæð áhættustjórnun og virkt gæðaeftirlit
Starfsemi samstæðunnar er á ýmsa vegu háð ytri aðstæðum og má þar nefna þann veigamikla áhrifaþátt að stór hluti hennar liggur innan skilgreinds ramma heilbrigðiskerfisins. Starfsemin er þannig vörðuð lögum, reglugerðum og opinberu eftirliti sem kallar á vönduð vinnubrögð í hvívetna. Heilbrigðir stjórnarhættir fela í sér áhættustýringu og eftirlit. Stjórn samstæðunnar leggur því ríka áherslu á heildstæða áhættustjórnun og virkt gæðaeftirlit sem hluta af daglegum rekstri samstæðunnar enda fela sífellt örari breytingar í umhverfi fyrirtækja í sér aukna áhættu.

Áherslur í gæðamálum á árinu 2022
“Með stofnun Ósa gafst tækifæri til að samræma stefnur og ferla og styrkja þannig gæðakerfi samstæðunnar. Árið 2022 var lögð áhersla á samvinnu innan samstæðunnar um að byggja upp gæðahandbækur félaganna í sameiginlegu gæðakerfi sem var innleitt og gildað fyrir lok árs. Gæðakerfið heldur þannig faglega utan um gæðahandbækur félaganna, þó með öllum þeim aðgangsstýringum sem nauðsynlegar eru, og stuðlar að enn skilvirkara og traustara gæðastarfi og öflugri þjálfun starfsfólks. Samstæðan viðheldur þannig faglegri hæfni og framþróun með sífelldri árvekni og símenntun sem gerir samstæðunni kleift að starfa á fullnægjandi hátt í faglegu umhverfi.”
Bessi H. Jóhannesson, framkvæmdastjóri Gæðasviðs Ósa
Góð atvinna og bætt lífskjör
Langvarandi og sjálfbær hagvöxtur er drifkraftur framfara, skapar góða atvinnu og bætt lífskjör. Með heilbrigðum stjórnarháttum viljum við halda áfram að byggja upp traustan og framsækinn vinnustað sem dregur að, heldur í og eflir framúrskarandi starfsfólk. Þannig viljum við skapa öruggt og gott starfsumhverfi sem styður við starfsfólk í faglegum og persónulegum vexti.
Hjá samstæðunni starfar öflugur hópur fólks með fjölbreyttan bakgrunn, margvíslega menntun og víðtæka reynslu og þekkingu af ýmsum sviðum samfélagsins. Í lok árs 2022 var heildarfjöldi stöðugilda hjá samstæðunni 192 en þau voru 194 að meðaltali yfir árið. Meðalaldur starfsfólks var 41 ár.
Áhersla samstæðunnar á jafnrétti endurspeglast í jafnréttisáætlun samstæðunnar sem gefin var út í lok árs 2021 og gildir til þriggja ára. Í jafnréttisáætluninni er lögð áhersla á jafnan rétt og jafna stöðu starfsfólks óháð kyni.
Í lok árs 2022 var kynjaskipting samstæðunnar í heild eftirfarandi:
- Karlar: 33%
- Konur: 67%
- Annað: 0%
Kynjahlutfall sundurliðað niður á einstök félög innan samstæðunnar:
Icepharma
Parlogis
Ósar
Samhliða jafnréttisáætluninni er unnið eftir jafnlaunastefnu sem hefur það að markmiði að tryggja að allt starfsfólk njóti jafnra og sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf þannig að ómálefnanlegur launamunur sé ekki til staðar. Sé óútskýrður launamunur til staðar skal stöðugt unnið að því að útrýma honum.
Markmið okkar er að kynbundinn launamunur sé undir 2%.
Ekki var unnin jafnlaunagreining fyrir árið 2022.

Helstu áherslur í mannauðsmálum 2022
Árið 2022 var fyrsta heila árið þar sem Ósar – lífæð heilbrigðis ehf. starfaði sem ein samstæða og hið nýja skipulag móðurfélags og dótturfélaganna Icepharma og Parlogis tók á sig mynd.
Stoðþjónusta á sviði fjármála, gæðamála, mannauðsmála og upplýsingatækni var efld til muna og starfsfólk fór betur og betur að finna taktinn eftir umtalsverðar skipulagsbreytingar ársins á undan. Áhersla var lögð á virka upplýsingagjöf í breytingaferlinu og að starfsfólk væri þátttakendur alltaf þegar því var við komið.
Solveig H. Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Mannauðssviðs Ósa
Sköpum tækifæri til að vaxa og dafna í lífi og starfi
Stjórnarhættir samstæðunnar miða að því að skapa tækifæri og svigrúm fyrir starfsfólk til að vaxa og dafna í lífi og starfi og því er lögð er áhersla á það að bjóða margvíslega fræðslu og þjálfun sem hentar fjölbreyttum hópi starfsfólks.
Fræðslustefna okkar miðar að því að starfsfólk geti aukið hæfni sína og nýtt hæfileika sína í starfi til fulls hverju sinni. Stefnan miðar ekki síður að því að bjóða starfsmönnum aðgengi að fjölbreyttri fræðslu sem stuðlar m.a. að heildrænni vellíðan starfsmanns og annarra einstaklinga sem standa starfsmanninum næst. Á þann hátt tryggjum við hámarks árangur af þeirri þjálfun og fræðslu sem fjárfest er í.
Fræðsludagskrá ársins 2022 skiptist í 7 fræðsluflokka:
- Heilsa
- Leiðtogaþjálfun
- Nýliðaþjálfun
- Persónuvernd
- Sala og þjónusta
- Samskipti og teymisvinna
- Upplýsingatækni
- Verkefnastýring
- Öryggismál
Fjöldi viðburða í fræðsludagskrá samstæðunnar árið 2022 var 41. Heildarfjöldi þátttakenda í fræðsludagskrá samstæðunnar árið 2022 var 627.