Árið 2016 tóku gildi 17 heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Um er að ræða víðtækustu markmið sem ríki heims hafa komið sér saman um og stefna þau að því að tryggja velmegun og mannréttindi um allan heim fyrir árið 2030.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun eru framkvæmdaáætlun okkar allra. Okkur er ljóst að sjálfbær þróun er stöðug vegferð og því er mikilvægt að við setjum okkur metnaðarfull markmið. Markmiðin þurfa þó einnig að vera raunhæf þannig að unnt sé að halda sig við efnið og ná árangri.

Við höfum valið að leggja megináherslu á eftirfarandi fjögur markmið við stefnumörkun og markmiðasetningu. Við lítum þó til allra 17 markmiðanna og undirmarkmiða sem ákveðinn leiðarvísi fyrir samstæðuna til framtíðar.

Heilsa og vellíðan

Almenn góð heilsa og vellíðan er afar mikilvægur þáttur í viðleitni til að ná markmiðum sjálfbærrar þróunar. Með yfirgripsmikilli reynslu og þekkingu starfsfólks, öflugu framboði lyfja, lækningatækja, rekstrarvara og heilsueflandi vara og víðtækri vörustjórnunar- og dreifingarþjónustu vinnum við markvisst að því meginmarkmiði að þjónusta heilbrigðisgeirann, auka lífsgæði einstaklinga og stuðla að bættri lýðheilsu og vellíðan landsmanna. Í samræmi við þetta stuðlum við að heilbrigðum lífsstíl og góðri heilsu starfsfólks okkar á margvíslegan hátt, meðal annars í formi styrkveitinga og með hvatningu til þátttöku í heilsueflandi athöfnum bæði innan sem og utan vinnustaðar.

Jafnrétti kynjanna

Hjá Ósum og dótturfélögum er unnið í samræmi við jafnréttisstefnu og jafnréttisáætlun sem byggir á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Við leggjum ríka áherslu á að viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum óháð kyni og höfnum kynbundu ofbeldi í hvers kyns mynd. Kynjahlutfall stjórnarmanna sem og framkvæmdastjóra félaganna er jafnt og dótturfélögin Icepharma og Parlogis hafa bæði hlotið jafnlaunavottun. Við berum virðingu fyrir einkalífi starfsfólks með því að bjóða upp á og stuðla að umhverfi og vinnustað þar sem öllum er gert kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu.

Góð atvinna og hagvöxtur

Við gerum okkur grein fyrir því að langvarandi og sjálfbær hagvöxtur er drifkraftur framfara, skapar góða atvinnu og bætt lífskjör. Tekjur samstæðunnar hafa vaxið síðustu ár og fjárhagslegur styrkleiki aukist sem hefur meðal annars gert okkur betur í stakk búin að takast á við efnahagslegar sveiflur og áföll. Félögin eru því í góðri stöðu til að sinna hlutverki sínu sem mikilvægur hlekkur í heilbrigðiskeðjunni og því hlutverki viljum við sinna með því að stunda sjálfbæra viðskiptahætti með samfélagsábyrgð að leiðarljósi.

Aðgerðir í loftslagsmálum

Við gerum okkur grein fyrir mikilvægi þess að hinar þrjár stoðir sjálfbærrar þróunar séu skoðaðar í samhengi þannig að leitast megi við að hámarka efnahagslega og félagslega velferð án þess að skaða umhverfið. Samstæðan hyggst setja sér metnaðarfull markmið í umhverfismálum árlega sem miða að því að haga starfsemi samstæðunnar þannig að neikvæðum umhverfisáhrifum sé haldið í lágmarki. Hvert félag mun þannig setja sér minni markmið til stuðnings meginmarkmiðum samstæðunnar. Lögð er rík áhersla á að efla umhverfisvitund starfsfólks og meðal annars eru gerðar reglulegar mælingar á kolefnisspori samstæðunnar og starfsfólki haldið upplýstum um árangurinn.