Umhverfisþættir hafa áhrif á heilsu fólks
Meginmarkmið starfsemi Ósa og dótturfélaga er að auka lífsgæði einstaklinga og stuðla að bættri heilsu og vellíðan landsmanna. Það gerum við með öflugu framboði lyfja, lækningatækja og heilsueflandi vara og að sinna víðtækri vörustjórnunar- og dreifingarþjónustu fyrir heilbrigðisgeirann. Umhverfisþættir geta haft á áhrif á heilsu fólks og því leggjum við einnig ríka áherslu á að lágmarka umhverfisáhrif þegar kemur að starfsemi samstæðunnar í allri okkar virðiskeðju.
Umhverfisstefna Ósa og dótturfélaga
Ósar og dótturfélögin hafa sett sér sameiginlega umhverfisstefnu. Innihald hennar, markmiðasetning og árangursmat eru hluti af heildarstefnu Ósa og dótturfélaga. Umhverfisstefnan nær til samstæðunnar í heild og skal vera leiðbeinandi fyrir félögin, stjórnendur og starfsfólk. Umhverfisstefnan nær til þess hvernig Ósar og dótturfélögin, saman og hvert fyrir sig, geta lagt sín lóð á vogarskálarnar til betra og heilbrigðara samfélags og umhverfis, samhliða að tryggja heilbrigðan rekstur.

Kröfur um umhverfisvitund í virðiskeðjunni
Icepharma og Parlogis gegna lykilhlutverki í að tryggja landsmönnum aðgang að lyfjum og heilbrigðisvörum, með dreifingu um allt land til stofnana, apóteka og fagaðila.
Stærstur hluti samstarfsaðila eru alþjóðlegir framleiðendur sem fylgja ströngum umhverfiskröfum og eru oft með vottað umhverfisstjórnunarkerfi, s.s. ISO 14001. Þeir leggja áherslu á ábyrga vöruþróun, sjálfbæra starfsemi og val á samstarfsaðilum með umhverfissjónarmið að leiðarljósi.
Til að tryggja keðjuábyrgð fara framleiðendur og birgjar reglulega yfir starfsemi Icepharma og Parlogis og krefjast þess að félögin geri sambærilegar kröfur til sinna samstarfsaðila.
Ósar og dótturfélög hafa sett skýrar siðareglur um umhverfismál og áskilja sér rétt til úttekta á samstarfsaðilum til að tryggja gæði og ábyrgð í virðiskeðjunni.
Lágmörkun umhverfisáhrifa við vörustýringu og vörudreifingu
Flutningur lyfja og lækningatækja fer einungis fram með samþykktum flutningsaðilum. Parlogis aðstoðar framleiðendur við val á flutningsleiðum, bæði erlendis og innanlands, með áherslu á að draga úr kolefnislosun í samræmi við stefnu framleiðenda.
Þegar Icepharma eða Parlogis bera ábyrgð á flutningum er lögð áhersla á skilvirkni og lágmörkun á eldsneytisnotkun. Parlogis er í samstarfi við Jónar Transport, sem sérhæfir sig í flutningi viðkvæmra vara með bílum sem uppfylla öll öryggis- og umhverfisskilyrði. Bílstjórar eru með ADR réttindi og GDP vottun. Jónar Transport er í eigu Samskipa sem starfa samkvæmt viðurkenndri umhverfisstefnu.
Vöruhús Parlogis
Parlogis rekur tvö vöruhús þar sem annað er sérhannað fyrir lyf og heilbrigðisvörur. Lyfja- og heilbrigðisvöruhús Parlogis er um 3000 fm. að stærð. Starfsemi Parlogis er vottuð samkvæmt ISO 9001 staðlinum og í vöruhúsunum er unnið samkvæmt ströngum gæðastöðlum og skjalfestum verkferlum. Að auki er unnið í samræmi við kröfur GMP (Good Manufacturing Practice) og GDP (Good Distribution Practice) sem styðja við skilvirka og umhverfisvæna starfsemi. Unnið er að því statt og stöðugt að draga úr orkunotkun í vöruhúsunum, notast við fjölnota ílát og fylgja í hvívetna góðum starfsvenjum í úrgangsstjórnun og endurvinnslu til að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif af starfseminni. Um það bil 99% af úrgangi Parlogis er endurnýttur í hringrásarkerfið eða til orkunýtingar.
Skilvirkar flutningsleiðir sem draga úr orkunotkun
Daglega eru afgreiddar yfir 700 pantanir úr vöruhúsum Parlogis. Dreifing vara úr vöruhúsum Parlogis á höfuðborgarsvæðinu fer í gegnum verktaka sem eru sérstaklega ráðnir til verksins. Flutningsleiðir eru valdar með það að leiðarljósi að hámarka skilvirkni og draga úr orkunotkun. Allir bílar eru hitastýrðir og mikil áhersla er lögð á árlega þjálfun í öllum verkferlum. Starfsaldur bílstjóra er almennt hár, sem tryggir að um sé að ræða vel þjálfaða og reynda ökumenn.
Íslandspóstur sér um flutning vara frá Parlogis á landsbyggðina og starfa eftir umhverfis- og loftlagsstefnu og er með aðgerðaáætlun henni til stuðnings.
Góður árangur í flokkun og endurvinnslu
Flokkun hefur verið í forgangi hjá samstæðunni undanfarin ár. Fyrir árið 2024 settum við okkur markmið um að bæta flokkun matarleifa hjá Brasserie Ósum og því markmiði hefur verið náð. Flokkun og endurvinnsla hjá Parlogis er einnig stór liður í kolefnisbókhaldi samstæðunnar. Frá árinu 2020 höfum við farið úr því að vera með 22% óflokkaðan grófan úrgang niður í 0% og 0% brennslu án orkunýtingar. Árið 2024 erum við komin niður fyrir 1% í urðun.
Sjá hér nánari sundurliðun:
Úrgangsflokkur | Flokkun | Þyngd (kg) | % Hlutfall af heild |
---|---|---|---|
Bylgjupappi | Endurvinnsla | 24.350 | 61,66% |
Blandaður úrgangur | Brennsla til orkunýtingar | 5.900 | 14,94% |
Matarleifar | Endurvinnsla | 4.690 | 11,88% |
Blandaðar plastumbúðir | Endurvinnsla | 3.560 | 9,01% |
Blandaður pappír og pappi | Endurvinnsla | 535 | 1,35% |
Urðanleg efni, ótalin annars s | Urðað | 265 | 0,67% |
Flokkaðar rafhlöður | Endurvinnsla | 167 | 0,42% |
Umbúðatimbur | Endurnýting | 22 | 0,06% |
Óflokkaður grófur úrgangur | Brennsla til orkunýtingar | 2 | 0,01% |
Flokkunarhlutfall samstæðunnar
Með samstilltu átaki og vel skilgreindum ferlum hefur okkur tekist að lágmarka
- Endurvinnsla: 84%
- Brennsla til orkunýtingar: 15%
- Urðað: 1%

“Undanfarin misseri höfum við hjá Ósum einblínt á að bæta umhverfisvitund og úrgangsflokkun, sérstaklega í vöruhúsum og mötuneyti.
Verkefnið byggðist á tveimur markmiðum: að skapa menningu þar sem allir flokka rétt, og að tryggja réttan búnað og gáma á réttum stöðum.
Í samstarfi við sveitarfélög fengum við fræðslu um flokkun og tókum meðvitaða ákvörðun um að hætta með blandaðan úrgang. Í staðinn settum við upp skýrt verklag með reglulegri losun til að gera flokkun auðvelda og sjálfsagða fyrir starfsfólk.”
Magnús Sólbjörnsson, aðstoðarrekstrarstjóri á rekstrarsviði Parlogis.
Fjarheilbrigðislausnir og velferðartækni vistvænni kostur
Icepharma og Ósar leggja áherslu á fjarheilbrigðislausnir og velferðartækni til að bæta aðgengi að þjónustu, auka öryggi skjólstæðinga og draga úr umhverfisáhrifum. Með þessum lausnum geta fleiri búið lengur heima við öruggar aðstæður, óháð búsetu, og dregið er úr þörfinni fyrir ferðir heilbrigðisstarfsmanna og skjólstæðinga.
Evondos sjálfvirkir lyfjaskammtarar hafa reynst lykillausn í þessari þróun. Þeir tryggja rétta lyfjagjöf án þess að hjúkrunarfræðingar þurfi að fara á staðinn, sem bætir meðferðarheldni og dregur úr akstri. Nú eru 242 skammtarar í notkun hér á landi og hver þeirra sparar að meðaltali 1,7 heimsóknir daglega.
Samkvæmt greiningu samsvarar þessi fækkun bílferða árlegum samdrætti í kolefnislosun upp á 82,5 tonn af CO₂. Þetta sýnir að snjöll nýsköpun getur bætt þjónustu og dregið úr umhverfisáhrifum – án þess að skerða umönnun.
Ósar hyggjast áfram vera leiðandi afl í þróun heilbrigðislausna framtíðarinnar – með áherslu á sjálfbærni, einföldun og þjónustu sem byggir á þörfum fólks.
Vægi umhverfisþátta við val á birgjum og samstarfsaðilum
Sífellt eru gerðar auknar kröfur til Icepharma og Parlogis þegar kemur að umhverfisþáttum og við viljum gera jafn ríkar kröfur til þeirra aðila sem við veljum að eiga í samstarfi við. Samstarfsaðilar okkar skulu starfa samkvæmt viðeigandi lögum og reglum þegar kemur að umhverfismálum og afar mikilvægt er að samstarfsaðilar okkar þekki umhverfisáhrif starfsemi sinnar og vinni að því með markvissum hætti að draga úr neikvæðum áhrifum hennar á umhverfið.
Þrátt fyrir að vottanir séu ekki fullkomnar má leiða að því líkur að vörur eða þjónusta sem hafa slíka vottun séu ólíklegri en ella að hafa neikvæð áhrif á líffræðilega fjölbreytni. Icepharma vinnur stöðugt að því að auka hlutfall af vörum sem hafa vottun um lífræna eða sjálfbæra framleiðslu.
Ævintýralegur vöxtur Sonett á Íslandi
Á aðeins fjórum árum hefur notkun Íslendinga á lífrænum hreinsiefnum frá Sonett vaxið yfir 300%. Þessi þróun er ekki tilviljun, heldur afleiðing vaxandi meðvitundar meðal neytenda um mikilvægi þess að velja vörur sem hafa jákvæð áhrif á náttúruna og stuðla að sjálfbærni til framtíðar.
Berglind Erna Þórðardóttir
Berglind Erna er rekstrarstjóri heilsu- og íþróttasviðs Icepharma. Hér segir hún okkur frá vexti Sonett og hvað gerir þetta vörumerki jafn einstakt og raun ber vitni.
Berglind Erna Þórðardóttir
Berglind Erna er rekstrarstjóri heilsu- og íþróttasviðs Icepharma. Hér segir hún okkur frá vexti Sonett og hvað gerir þetta vörumerki jafn einstakt og raun ber vitni.
Umhverfisvottun við hönnun á framtíðarhúsnæði samstæðunnar
Eitt af stærstu verkefnum Ósa er uppbygging heilsubyggðar á Arnarneshálsi í Garðabæ en þar verða framtíðarhöfuðstöðvar Ósa.
Starfsfólk Ósa og dótturfélaga er lykillinn að því að öll fyrirtæki innan samstæðunnar nái markmiðum sínum, og þar skiptir engu hvort þau markmið séu viðskiptalegs eðlis eða á sviði sjálfbærni og umhverfisverndar. Vinnuumhverfið og þeir umhverfisþættir sem móta það er þannig mikilvægur þáttur þegar horft er til lífsgæða í starfi. Til þess er horft við hönnun á framtíðarhöfuðstöðvum samstæðunnar.

BREEAM vistvottun í Arnarlandi
”Með umhverfis- og sjálfbærnimál að leiðarljósi verður skipulag hverfisins með þeim hætti að það uppfylli skilyrði um BREEAM vistvottun. Vottunin hefur það markmið að tryggja efnahagslegan og samfélagslegan ávinning á sama tíma og dregið er úr umhverfisáhrifum. Þannig styður verkefnið við stefnur og gildi samstæðunnar um sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð.”
Hálfdan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Parlogis, leiðir uppbyggingu á atvinnuhluta landsins fyrir hönd Ósa.
Áframhaldandi kortlagning á umhverfisþáttum
Kortlagning umhverfisþátta í starfsemi Ósa er í stöðugri þróun. Niðurstöðurnar eru skráðar í sérstakt kolefnisbókhald þar sem stuðst er við losunarstaðla frá Umhverfisstofnun fyrir alla þætti nema fyrir hitaveitu og flugsamgöngur. Fyrir hitaveitu er notast við upplýsingar frá Veitum og fyrir flugferðir er notast við reiknivél frá ICAO sem reiknar kolefnislosun flugferða. Með því að skrá áhrif rekstursins á umhverfið getum við séð árangur af þeim aðgerðum sem stuðla að því að lágmarka umhverfisáhrif en einnig óeðlileg frávik sem gerir okkur kleift að bregðast við á ábyrgan hátt. Undanfarin ár hefur verið lögð áhersla á aukna upplýsingaöflun fyrir fleiri losunarþætti undir umfangi 3 og sú vinna heldur áfram næstu ár.
Niðurstöður útreiknings á kolefnisspori Ósa
fyrir árið 2024
Umfang | Vinnubílar | Kælimiðlar | Rafmagn | Hiti | Úrgangur | Flugferðir | Ferðir starfsmanna til og frá vinnu | Bílaleigubílar | Samtals tCO₂ í g/ári |
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Umfang 1 | 170,8 | 13,8 | 184,6 | ||||||
Umfang 2 | 6,0 | 6,9 | 12,9 | ||||||
Umfang 3 | 0,4 | 44,6 | 0,0 | 0,0 | 45,0 | ||||
Samtals | 242,5 |
Umfang 1: Bein áhrif. Losun frá starfsemi
Um er að ræða þá losun sem verður til í rekstri samstæðunnar, s.s. vegna eldsneytisbruna farartækja eða gasleka af kælikerfum.
Umfang 2: Óbein losun vegna aðkeyptrar orku
Hér er um að ræða losun sem verður til við framleiðslu á því rafmagni og heita vatni sem notað er í starfsemi Ósa og dótturfélaga.
Umfang 3: Óbein losun í virðiskeðju samstæðunnar
Svo sem úrgangur og endurvinnsla, innanlands- og millilandaflug, ferðir starfsmanna til og frá vinnu og annað sem fellur til vegna starfseminnar.