Mannauður

Mannauðurinn er okkar mikilvægasta auðlind sem við leggjum okkur fram við að hlúa að. Markmið okkar er að skapa öruggt og gott starfsumhverfi þannig að vinnan geti stuðlað að auknum lífsgæðum starfsfólks.

Vellíðan á vinnustað eykur lífsgæði 

Mannauðurinn er okkar mikilvægasta auðlind sem við leggjum okkur fram við að hlúa að. Markmið okkar er að skapa öruggt og gott starfsumhverfi þannig að vinnan geti stuðlað að auknum lífsgæðum starfsfólks. Mannauðsstefnan og aðrar stefnur henni til stuðnings tryggja sameiginlega sýn starfsfólks og stjórnenda á Ósa og dótturfélögin sem vinnustað. Stefnurnar skilgreina lykiláherslur félaganna þegar kemur að því að byggja upp traustan og framsækinn vinnustað og hafa það sameiginlega markmið að draga að, halda í og efla framúrskarandi starfsfólk og styðja við það í faglegum og persónulegum vexti.

Samstæðan hefur sett sér stefnu gegn einelti, áreitni og ofbeldi þar sem fram kemur að einelti, kynbundin eða kynferðisleg áreitni, sem og annað ofbeldi er ekki undir neinum kringumstæðum umborið né liðið. Mannauðsstjóri samstæðunnar ber ábyrgð á stefnu, verkferlum og fræðslu í þessum málaflokki.

Virðing borin fyrir einkalífi starfsfólks

Ljóst er að fjölmargir þættir, líkamlegir, félagslegir sem og andlegir, hafa áhrif á það hvernig starfsfólki líður á vinnustaðnum og utan hans. Við leggjum áherslu á að skapa jákvætt og hvetjandi vinnuumhverfi þar sem samskipti einkennast af gagnkvæmri virðingu og samkennd. Við berum jafnframt virðingu fyrir einkalífi starfsfólks með því að bjóða upp á sveigjanleika í skipulagningu á vinnu og vinnutíma þannig að öllum sé gert kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu.

Tækifæri til að vaxa og dafna í lífi og starfi

Fræðslustefna Ósa og dótturfélaga miðar að því að starfsfólk geti aukið hæfni sína og nýtt hæfileika sína í starfi til fulls hverju sinni. Með árangursdrifinni menningu viljum við skapa tækifæri fyrir starfsfólk til að vaxa og dafna í lífi og starfi og því er lögð er áhersla á það að bjóða margvíslega fræðslu og þjálfun sem hentar fjölbreyttum hópi starfsfólks. Við nýtum nýja þekkingu í störfum okkar, miðlum henni til annarra, og tryggjum þannig árangur af þeirri þjálfun og fræðslu sem fjárfest er í.

Solveig H. Sigurðardóttir

Solveig er mannauðsstjóri samstæðunnar. Hún hefur æft lyftingar frá árinu 2011, tekið þátt í mótum og unnið til verðlauna í íþróttinni. Auk þess er hún með dómararéttindi og dæmir reglulega á kraftlyftingamótum hérlendis.

Uppgjör mannauðsstjóra á árinu 2021

Ár breytinga og tækifæra 

Árið 2021 var vissulega sérstakt ár og lærdómsríkt en uppfullt af tækifærum og framþróun. Heimsfaraldurinn hélt áfram að setja mark sitt á starfsumhverfið með tilheyrandi áskorunum en árangurinn er til marks um það að starfsfólk lét ekki deigan síga og sýndi, líkt og áður, hvað í því býr.

Á fyrri hluta ársins var tilkynnt um skipulagsbreytingar með stofnun móðurfélagsins Ósar – lífæð heilbrigðis hf. Í árslok færðust átján starfsmenn dótturfélaganna yfir í móðurfélagið þar sem þeir sinna stoðþjónustu fyrir dótturfélögin. Um er að ræða stoðþjónustu á sviði fjármála, gæðamála, mannauðsmála og upplýsingatækni. Einnig var mötuneyti, símsvörun og móttaka gesta fyrir samstæðuna sameinuð á einn stað. Fimm nýir starfsmenn voru ráðnir á árinu beint inn í hið nýstofnaða móðurfélag. Að öðru leyti höfðu breytingarnar lítil sem engin áhrif á stærstan hluta starfsfólks og dagleg störf þeirra. Breytingum fylgir þó alltaf ný sýn á tækifæri og framþróun og því tökum við fagnandi á móti þeim spennandi tímum sem framundan eru.

Á árinu setti samstæðan sér fjarvinnustefnu til að mæta þeim aðstæðum sem við stóðum frammi fyrir en einnig til að svara kalli starfsfólks um aukinn sveigjanleika og fjölbreyttara starfsumhverfi. Eitt af markmiðum fjarvinnustefnunnar er einmitt að spara dýrmætan tíma og draga úr kolefnisspori sem hlýst af ferðum í og úr vinnu.

Með nýju skipulagi var komin þörf fyrir aukið upplýsingaflæði og nýja nálgun í samskiptum. Ákveðið var að innleiða Workplace sem samskiptamiðil þar sem allt starfsfólk hafa jafnan aðgang að upplýsingum og tilkynningum, hvort sem það er matseðill vikunnar, tilkynning um nýtt starfsfólk, skráning á viðburði eða kynning á nýjum vörum. Þetta hefur gefist vel og mikil virkni og endurgjöf er á miðlinum sem aftur gefur tilfinningu um góðan starfsanda og áhuga fólks hvert á öðru og störfum hvers annars.

Við erum afar stolt af mötuneytinu okkar, Brasserie Ósar eins við köllum það. Þar er ekki aðeins boðið upp á hollan og góðan, fallegan og fjölbreyttan mat í hádeginu heldur komum við þar öll saman daglega til þess að taka hlé frá vinnu og njóta félagsskapar hvert við annað. Öll förum við mettari og glaðari frá Brasserie Ósum en við fórum inn!

Í fyrsta skipti á síðasta ári var gerð jafnlaunaúttekt fyrir samstæðuna í heild og jafnlaunastefna Ósa innleidd, en áður höfðu dótturfélögin Parlogis og Icepharma hlotið jafnlaunavottun hvort í sínu lagi. Á sama tíma var jafnréttisáætlun endurskoðuð og aðlöguð að starfseminni. Framvegis verður starfrækt eitt jafnlaunakerfi fyrir samstæðuna sem er í anda þess að efla stoðþjónustu, dótturfélögunum til hagsbóta.

Starfsánægja er einn af mikilvægustu þáttum hvers vinnustaðar. Icepharma hefur notað vinnustaðagreiningar HR Monitor til að mæla og fylgjast með upplifun starfsfólks á eigin störfum, starfsumhverfi og líðan á vinnustað. Niðurstöður hafa sýnt í gegnum árin að starfsfólki Icepharma líður almennt vel í vinnunni, er ánægt með starfsumhverfið og stolt af vinnustaðnum. Það er okkar reynsla að reglulegar mannauðsmælingar hjálpi til við að auka virkni starfsfólks og styðji við færni stjórnenda en þetta eru lykilþættir í að viðhalda góðum starfsanda og draga úr starfsmannaveltu. Í samræmi við skipulagsbreytingarnar verður fyrsta starfsmannakönnun nýs árs send út til allra starfsmanna samstæðunnar. Í okkar huga eru mælingar sem þessar afar mikilvægt tól, sér í lagi á tímum breytinga, þar sem starfsfólk getur nýtt sér könnunina sem rödd til að koma ábendingum hratt og auðveldlega á framfæri. Niðurstöðurnar eru svo kynntar starfsfólki og nýttar sem tækifæri til umbóta.

Það er óhætt að segja að árið 2021 hafi verið krefjandi en með samstilltu átaki og samhug mættum við áskorunum af krafti og náðum að ljúka mörgum mikilvægum verkefnum. Það er hugvit starfsfólksins, áræðni þess, þekking, geta og dugnaður sem skapar árangur frá degi til dags og við göngum full tilhlökkunar inn í nýtt ár, tilbúin að taka á móti öllum þeim verkefnum og tækifærum sem það mun hafa upp á að bjóða.

Fjölbreytileiki og jöfn tækifæri  

Hjá samstæðunni starfar öflugur hópur fólks sem hefur margvíslega menntun með fjölbreyttan bakgrunn og víðtæka reynslu og þekkingu af ýmsum sviðum samfélagsins. Í lok árs 2021 var heildarfjöldi stöðugilda 186 en þau voru 182 að meðaltali yfir árið. Meðalaldur starfsfólks er 45 ár.

0
Meðalaldur starfsmanna
0
einstaklingar sem fengu laun á árinu (2021)
0
einstaklingar sem fengu laun á árinu (2021) og voru fastráðnir.

Starfsfólk hefur val um hvort og í hvaða stéttarfélagi það greiðir og eru 95% starfsmanna aðilar að stéttarfélagi. Flestir eru meðlimir í VR eða 62% starfsmanna samstæðunnar, 10% eru í Lyfjafræðingafélagi Íslands, 6% í Eflingu og 5% í Félagi íslenskra náttúrufræðinga.

Kynjaskipting starfsfólks

Í lok árs 2021 var kynjaskipting starfsfólks eftirfarandi:

Ósar

Icepharma

Parlogis

Kynjaskipting stjórnenda

Í lok árs 2021 var kynjaskipting stjórnenda eftirfarandi:

Framkvæmdastjórn Ósa

Framkvæmdastjórn Icepharma

Framkvæmdastjórn Parlogis

Starfsmannaráð Ósa

Hvert félag innan samstæðunnar er með sitt eigið starfsmannafélag sem reglulega stendur fyrir viðburðum sem eru ætlaðir starfsfólki og fjölskyldum þeirra. Í byrjun árs 2022 verður sett á laggirnar sameiginlegt starfsmannaráð samstæðunnar þar sem munu hafa sæti meðlimir starfsmannafélaganna þriggja ásamt forstjóra, aðstoðarforstjóra, mannauðsstjóra og sérfræðingi mannauðsmála. Tilgangur starfsmannaráðsins er að vera umræðuvettvangur starfsfólks og stjórnenda fyrir ýmis mál sem snerta starfsmenn s.s. mannauðsstefnur, upplýsingagjöf og fræðslumál. Að auki mun ábyrgð á stærri sameiginlegum viðburðum eins og árshátíð og starfsdögum liggja hjá ráðinu.

Jafnrétti og jafnlaunastefna

Áhersla samstæðunnar á jafnrétti styður við fimmta heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem snýr að jafnrétti kynjanna. Parlogis hefur frá árinu 2013 verið með jafnlaunakerfi og jafnlaunavottun og Icepharma hlaut jafnlaunavottun í lok árs 2020.

Í samræmi við skipulagsbreytingarnar gaf samstæðan í lok árs 2021 út aðgerðaráætlun í jafnréttismálum til þriggja ára ásamt jafnlaunastefnu. Í jafnréttisáætlun Ósa og dótturfélaga er lögð áhersla á jafnan rétt og jafna stöðu starfsfólks óháð kyni. Með jafnréttisáætluninni eru stjórnendur og aðrir starfsmenn minntir á að innan fyrirtækisins skulu allir fá sömu meðferð, án tillits til kynferðis, trúar, lífsskoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, kynhneigðar, kynvitundar, fötlunar, aldurs og stöðu að öðru leyti.

Markmið jafnlaunastefnunnar er að tryggja að allt starfsfólk njóti jafnra og sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf þannig að ómálefnalegur launamunur sé ekki til staðar. Sé óútskýrður launamunur til staðar skal stöðugt unnið að því að útrýma honum. Í lok árs 2021 fóru dótturfélögin í gegnum viðhaldsúttekt þar sem niðurstöður launagreiningar sýndu eftirfarandi:

Niðurstöður jafnlaunagreiningar Icepharma 2021

0%
Kyndbundinn launamunur körlum í vil

Niðurstöður jafnlaunagreiningar Parlogis 2021

0%
Kyndbundinn launamunur körlum í vil

Markmið okkar er að kynbundinn launamunur séu undir 2% og því erum við afar stolt af góðum árangri á þessu sviði. Árið 2022 verður framkvæmd samþætt jafnlaunagreining fyrir samstæðuna í heild.

Heilsueflandi vinnustaður 

Góð heilsa og leiðir til að efla heilbrigði er í forgrunni í öllu okkar starfi. Samstæðan hefur sett sér heilsu- og öryggisstefnu sem styður við mannauðsstefnu samstæðunnar og er litið til hennar sem leiðarljós að bættu vinnuumhverfi, betri heilsu og auknum lífsgæðum starfsfólks.

Árið var að hluta til óvenjulegt með tilheyrandi fjarvinnu og samkomutakmörkunum en á slíkum tímum er heilsuefling síst mikilvægari. Starfsfólk er hvatt til að huga vel að eigin heilsu og stunda heilbrigt líferni og leggur samstæðan sitt af mörkum í þeim efnum. Starfsfólki er meðal annars veittur styrkur til heilsuræktar og annarrar heilsueflingar og býðst að kaupa fjölbreytt úrval af heilsutengdum vörum á sérkjörum.

Heilsuvika Ósa

Í nóvember 2021 var heilsuvika Ósa haldin þar sem markmiðið var að virkja starfsfólk til að huga að heilsunni saman. Alla daga vikunnar var boðið upp á fjölbreytta heilsueflandi dagskrá þar sem starfsfólk ýmist miðlaði þekkingu sinni til samstarfsfólks, svo sem í formi heilsumarkþjálfunar og vörukynninga, eða efldi hvert annað til heilsueflandi iðkunar, svo sem til sjósunds og fjallgöngu. Heilsuvikan heppnaðist mjög vel þrátt fyrir að hafa litast af ýmsum takmörkunum og er stefnt að því að hún verði árlegur viðburður héðan í frá.

María Bragadóttir

Hér segir María Bragadóttir, fjármálastjóri Ósa, frá því hvernig stuðlað er að heilsuvernd og heilsueflingu starfsmanna samstæðunnar.

María Bragadóttir

María hefur stundað bardagaíþróttina Taekwondo í mörg ár, er margfaldur Íslandsmeistari í greininni og starfar sem þjálfari í Taekwondo-deild KR. Í heilsuviku Ósa hélt María örnámskeið í sjálfsvörn fyrir kvenkyns starfsmenn samstæðunnar og dætur þeirra.