Heilbrigðir stjórnarhættir og heilsutengdar áherslur

Stjórn Ósa og dótturfélaga gerir sér grein fyrir auknum kröfum sem gerðar eru til fyrirtækja á sviði ábyrgðar gagnvart samfélaginu. Stjórnin leggur því áherslu á heilbrigða stjórnarhætti og að þróa þá stöðugt og styrkja enda leggja þeir grunninn að ábyrgri stjórnun, vandaðri ákvarðanatöku og traustum samskiptum.

Stjórnarhættir samstæðunnar kveða á um hvernig innra skipulag stuðlar að virkri og heilbrigðri stjórnun með markmið samstæðunnar að leiðarljósi. Við viljum hafa áhrif á samfélagið, þ.m.t. starfsmenn samstæðunnar, og stuðla að því að einstaklingar geti viðhaldið heilsu og vellíðan og bætt lífsgæði sín til framtíðar. Stjórnarhættir samstæðunnar taka mið af þessum markmiðum og endurspeglast í heilsutengdum áherslum þegar kemur að stefnumótun, ákvarðanatöku, markmiðasetningu og menningu jafnt í ytra sem og innra starfi.

Framkvæmdastjórn Ósa

Framkvæmdastjórn Ósa

Efri röð frá vinstri: Hálfdan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Parlogis; Solveig H. Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Mannauðssviðs; Hörður Þórhallsson, forstjóri Ósa; Hjörtur Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðissviðs Icepharma; Þuríður Hrund Hjartardóttir, framkvæmdastjóri Heilsu- og íþróttasviðs Icepharma; María Bragadóttir, framkvæmdastjóri Fjármálasviðs.

Neðri röð frá vinstri: Lilja Dögg Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Lyfjasviðs Icepharma; Þorgeir Arnar Jónsson, framkvæmdastjóri Markaðssviðs.

Heildstæð áhættustjórnun og virkt gæðaeftirlit

Starfsemi Ósa er á ýmsa vegu háð ytri aðstæðum og má þar nefna þann veigamikla áhrifaþátt að stór hluti hennar liggur innan skilgreinds ramma heilbrigðiskerfisins. Starfsemin er þannig vörðuð lögum, reglugerðum og opinberu eftirliti sem kallar á vönduð vinnubrögð í hvívetna.  Heilbrigðir stjórnarhættir fela í sér áhættustýringu og eftirlit. Því er lögð rík áhersla á heildstæða áhættustjórnun og virkt gæðaeftirlit sem hluta af daglegum rekstri.

Gæðakerfi samstæðunnar

Á árinu 2023 höfum við lagt sérstaka áherslu á að bæta gæðakerfið okkar og tryggja að öll starfsemin uppfylli hæstu gæðakröfur. Við höfum unnið markvisst að því að innleiða nýjar verklagsreglur og bæta þær sem fyrir eru, allt í þeim tilgangi að tryggja áreiðanleika og bæta þjónustu til viðskiptavina okkar.

Við innleiddum nýtt hitavöktunarkerfi fyrir vöruhúsið til tryggja gæði við geymslu sem er sérstaklega mikilvægt fyrir þá starfsemi sem við sinnum. Á árinu tók Parlogis í notkun rafrænt endursendingakerfi til að bæta skilvirkni og rekjanleika í endursendingarferlinu. Kerfið auðveldar viðskiptavinum að skila vörum, sem bætir þjónustu við þá og einfaldar ferlið sem leiðir til minni sóunar.

Einnig var lögð áhersla á menntun og þjálfun starfsfólks en starfsmenn sóttu sér þekkingu í gæðamálum innanlands og erlendis til að þróast og eflast í starfi. Þannig viðhöldum við hæfni og framþróun sem gerir okkur kleift að starfa í faglegu umhverfi sem er í sífelldri þróun.

Soffía Guðrún Magnúsdóttir
Gæðastjóri

Siða- og samskiptareglur

Eðli starfseminnar kallar á að félögin og starfsmenn þess hlíti ítrustu stöðlum, lögum og reglum þegar kemur að siðferði og samskiptum starfsmanna við hagaðila. Starfsfólk framfylgir siða- og samskiptareglum sem endurspegla hvernig starfsfólk hagar samskiptum sínum við neytendur, birgja, viðskiptavini, samstarfsfólk, eftirlitsstofnanir, hluthafa, samkeppnisaðila sem og samfélagið allt. Tilgangur reglnanna er að stuðla að samfélagslegri ábyrgð, heiðarleika, réttsýni og sanngirni í viðskiptum og efla traust á Ósum og dótturfélögum þess.

Heiðarleg og ábyrg viðskipti

Ósar og dótturfélög stunda heiðarleg og ábyrg viðskipti þar sem hvers konar mútur og spilling er hvorki viðhöfð né liðin. Samstæðan hefur sett sér stefnu sem er ætlað að tryggja að samstæðan hafi viðeigandi umgjörð og varnir gegn spillingu og mútuþægni.

Birgjamat og úttektir

Virðiskeðja samstæðunnar er byggð á siðrænum og ábyrgum gildum. Með framkvæmd birgjamats og úttekta geta Ósar og dótturfélög þess haft samfélagsleg áhrif á samstarfsaðila sína og nærumhverfi til framtíðar og valið að starfa með birgjum og þjónustuaðilum sem starfa eftir sömu gildum og samstæðan.

Heilsumiðað vinnuverndarstarf

Góð heilsa og leiðir til að efla heilbrigði er í forgrunni í öllu okkar innra starfi. Við vitum að vellíðan á vinnustað eykur lífsgæði starfsfólks og leggjum því áherslu á að skapa öruggt og gott starfsumhverfi og efla heilbrigði starfsfólks á margvíslegan hátt. Þess vegna höfum við í æ ríkara mæli verið að beina sjónum okkar að skipulögðu innra vinnuverndarstarfi með því m.a. að efla þekkingu og hugsun stjórnenda og starfsmanna um heilsu- og vinnuverndarmál. Hér má lesa nánar um mannauðsmál samstæðunnar.

Upplýsingaöryggi í forgrunni

Við gerum okkur grein fyrir því að upplýsingarnar og gögn, sem starfsfólk tekur á móti, safnar, skráir, vinnur með o.fl., ásamt stuðningsferlum, kerfum, netum og öðrum auðlindum eru ein mikilvægustu rekstrarlegu verðmæti samstæðunnar sem þarfnast virkrar verndar fyrir ólíkum ógnum. Undanfarið ár höfum við því lagt höfuðáherslu á upplýsingaöryggismál í víðum skilningi.

Samstæðan hefur sett sér upplýsingaöryggisstefnu og verklagsreglur henni til stuðnings sem er ætlað að styðja við samfelldan rekstur og hámarka öryggi upplýsingaverðmæta.Stefnunni er þannig ætlað að tryggja hlítingu við kröfur er varða upplýsingaöryggi og vinnslu persónuupplýsinga, s.s. kröfur sem koma fram í lögum og reglum og í samningum við viðskiptavini og samstarfsaðila.

Ábyrg meðhöndlun persónuupplýsinga

Fyllsta öryggis er gætt við meðhöndlun persónuupplýsinga og lýsa persónuverndarstefnur félaganna ábyrgri meðhöndlun slíkra upplýsinga. Hlutverk persónuverndarfulltrúa Ósa er að vera stjórnendum innan handar og veita ráðgjöf þegar kemur að meðhöndlun persónuupplýsinga í starfseminni en hann hefur ekki síður mikilvægu hlutverki að gegna gagnvart starfsmönnum, s.s. við upplýsingagjöf, fræðslu, þjálfun og aðra almenna öryggisvakningu meðal starfsmanna. Samstæðan hefur sett sér stefnu um persónuvernd starfsmanna og sérstök áhersla hefur verið lögð á upplýsingagjöf til starfsmanna.

Fjárfest í mannauði

Stjórnarhættir samstæðunnar miða að því að skapa tækifæri og svigrúm fyrir starfsfólk til að vaxa og dafna í lífi og starfi og því er lögð áhersla á það að bjóða margvíslega fræðslu og þjálfun sem hentar fjölbreyttum hópi starfsfólks.

Sköpum tækifæri til að vaxa og dafna í lífi og starfi

Fræðslustefna okkar miðar að því að starfsfólk geti aukið hæfni sína og nýtt hæfileika sína í starfi til fulls hverju sinni. Stefnan miðar ekki síður að því að bjóða starfsmönnum aðgengi að fjölbreyttri fræðslu sem stuðlar m.a. að heildrænni vellíðan starfsmanns og annarra einstaklinga sem standa starfsmanninum næst. Á þann hátt tryggjum við hámarks árangur af þeirri þjálfun og fræðslu sem fjárfest er í.

Árið 2023 tóku 183 starfsmenn af 210 þátt í fræðslustarfi Ósa, eða 87%.

0%
Icepharma
0%
Parlogis
0%
Ósar stoðsvið

Fjöldi þátttakenda var 1085 og má líta svo á að hver starfsmaður hafi að meðaltali tekið þátt í 6 viðburðum.

Eins og sjá má hefur fræðsla á sviði heilsu og samskipta verið fyrirferðarmikil og vinsæl meðal starfsmanna, en 36% heildarþátttöku í fræðslu tilheyrir fræðsluflokknum heilsa og 17% í flokknum samskipti og teymisvinna. Má þar nefna fræðslu um einelti, kynferðislega og kynbundið áreiti og ofbeldi (EKKO), næringu, hreyfingu, bandvefslosun, sálræna skyndihjálp, venjur og markmið og fleira.

Jafnframt var áfram haldið með leiðtogaþjálfun fyrir stjórnendateymi Ósa og dótturfélaga sem hófst haustið 2022 þar sem áhersla var lögð á styðja við stjórnendur og efla tengsl þeirra á milli. Að auki var gefin út viðamikil stjórnendahandbók sem styður við störf stjórnenda þegar kemur að mannauðsstjórnun. Handbókin veitir upplýsingar um verklag og viðmið og aðgengi að fjölbreyttu stuðnings- og fræðsluefni.

Leiðarljós Ósa

Leiðarljós Ósa vísa starfsfólki veginn í daglegum störfum og samskiptum og eru stór þáttur í að skapa jákvæða og góða vinnustaðamenningu. Leiðarljósin eru afrakstur stefnumótunarvinnu þar sem allt starfsfólk samstæðunnar tók þátt og markaði í sameiningu samskiptasáttmálann. Leiðarljósin eru átta talsins og eru eftirfarandi:

  1. Við komum vel fram hvert við annað
  2. Við tölum við fólk en ekki um fólk
  3. Við hlustum af athygli og sýnum áhuga
  4. Við segjum það sem okkur býr í brjósti og veljum stað og stund
  5. Við gætum hvert annars og veitum stuðning
  6. Við deilum hugmyndum og fögnum ólíkum sjónarmiðum
  7. Við höfum rými til að læra og þroskast í samskiptum
  8. Við nýtum tækifærin til að hrósa hvert öðru

Leiðarljósin eru til þess ætluð að leiðbeina og styrkja okkur í samskiptum og eru þau orðin mikilvægur hluti af daglegum störfum og samskiptum í samsteypunni.

Leiðarljós Ósa

Góð atvinna og bætt lífskjör

Hjá Ósum starfar öflugur hópur fólks með fjölbreyttan bakgrunn, margvíslega menntun og víðtæka reynslu og þekkingu af ýmsum sviðum samfélagsins.

Samstæðan

Samhliða jafnréttisáætlun er unnið eftir jafnlaunastefnu sem hefur það að markmiði að tryggja að allt starfsfólk njóti jafnra og sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf þannig að ómálefnanlegur launamunur sé ekki til staðar. Sé óútskýrður launamunur til staðar skal stöðugt unnið að því að útrýma honum.

Markmið okkar er að kynbundinn launamunur sé undir 2%.