Fjárfest í framtíðinni

Ósar og dótturfélög eru leiðandi afl á íslenskum markaði í heilsu og heilbrigðum lífsstíl og sú staða helgast af ríkri áherslu samstæðunnar á stöðuga framþróun.  Á árinu 2023 var sérstök áhersla lögð á fjárfestingar til framtíðar og er af ýmsu að taka.  

Fyrirtækið E. Bridde, sem sérhæfir sig í tannlækningavörum, var keypt og með fyrirtækinu kom Straumann sem er í fremstu röð í tannplöntum og tannréttingaskinnum. Stofnuð var Tannheilsudeild til að sinna Straumann og öðrum öflugum birgjum á sviði tannlækninga.  

Gengið var frá kaupum á fyrirtækinu Vetis sem var meðal annars með hágæða gæludýrafóður frá Belcando og rak vefverslunina dyrafodur.is. Gæludýrafóður í þessum gæðaflokki fellur vel að starfsemi samstæðunnar í dýraheilsu og undirstrikar að við látum okkur einnig varða um heilsu og velferð dýra.  

Stofnuð var ný deild með áherslu á velferðartækni og viðskiptaþróun. Heilbrigðis- og velferðartækni skiptir sífellt meira máli vegna öldrunar þjóðarinnar og við ætlum okkur að vera tilbúin til þess að mæta þeim áskorunum sem bíða okkar í velferðarsamfélagi framtíðarinnar.  

Ráðist var í ýmsar skipulagsbreytingar og þá helst hvað snýr að móðurfélaginu Ósum. Helst ber að nefna að Markaðssvið Ósa var stofnað til að samþætta og styrkja markaðsstarf samstæðunnar.   

Starfsfólk samstæðunnar hefur það gefandi hlutverk að sinna daglega því mikilvæga verkefni að tryggja landsmönnum aðgang að lífsnauðsynlegum lyfjum og lækningatækjum. Þannig gegnir það stóru hlutverki í íslensku heilbrigðiskerfi. Samstæðan er einnig leiðandi í sölu og markaðssetningu margvíslegra heilsueflandi vara er tengjast íþróttum, hreyfingu, fæðubótarefnum og heilsusamlegu fæði. Samfélagsleg ábyrgð er þannig samofin tilgangi og markmiðum starfseminnar sem endurspeglast í heilsutengdum áherslum og menningu í öllu okkar starfi.  

Við lítum björtum augum til framtíðar og munum halda áfram að vera lífæð heilbrigðis í landinu. 

Hörður Þórhallson

Forstjóri Ósa